Forvarnarfyrirlesturinn Sjálfsmynd og kynheilbrigði

Mikil pressar er á ungt fólk í dag og erfitt er að standast kröfur utanaðkomandi áhrifa. Þetta er ekki síst áberandi á samfélagsmiðlum þar sem að allt er látið flakka og mikið um óraunhæfa útlitsdýrkun og brenglaðar staðalímyndir.

Sjálfsmynd unga fólksins okkar fer versnandi, en það getur meðal annars leitt til slæmra ákvarðana og átt þátt í því að það sé erfiðara að setja mörk þegar að kemur að samskiptum og kynlífi. 

Vottaður ACC markþjálfi

Kristín Þórsdóttir er ACC vottaður markþjálfi og vottaður kynlífsmarkþjálfi (e. sex coach). Hún hefur haldið þennan fyrirlestur fyrir unglinga síðan í byrjun árs 2019 og heimsótt marga grunn- og framhaldsskóla víðsvegar um landið.

Fyrirlesturinn fjallar meðal annars um sjálfsmynd okkar, sjálfsfróun og mikilvægi þess að þekkja líkama sinn áður en að maður fer að stunda kynlíf með öðrum. Að standa með sjálfum sér, fyrsta skiptinu og mikilvægi þess að hlusta á innsæi sitt. Einnig fjallar Kristín um kynferðisofbeldi sem að hún varð fyirr þegar hún var 16 ára og mikilvægi þess að segja frá og leita sér aðstoðar.

Setja sér mörk um eigin líkama og bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.

Fyrirlesturinn er settur upp með þeim hætti að farið er á opinskáan og hreinskilinn hátt í viðfangsefnið og þannig náð athygli nemendanna. Rík áhersla er lögð á forvarnir og fræðslu. 

Eftir fyrirlesturinn gefst nemendum tækifæri til þess að spyrja spurninga í gegnum forritið slido.com. Þar er hægt að senda inn nafnlausar spurningar sem að varða þetta málefni. Farið verður yfir spurningarnar í sameiningu og þeim svarað. Allt þetta er til þess að hvetja þau til umhugsunar og oft skapast miklar og góðar samræður í kringum málefnið.

Kristín brennur fyrir þessu málefni, en hún telur að fyrirlestur sem þessi hefði getað hjálpað henni þegar að hún var með brotna sjálfsmynd sem unglingur og tók slæmar ákvarðanir fyrir sig.

Það sem unga fólkið okkar fær meðal annars út úr því að hlusta á fyrirlesturinn er aukin meðvitund um það hversu miklu máli skiptir að standa með sjálfum sér og innsæi sínu. Þannig geta þau byggt upp sjálfsmynd sína og auka þannig líkur á betra kynheilbrigði.

Fyrirlesturinn sjálfur tekur rúmar 40 mínútur en í heildina gerir hún ráð fyrir ca 60 mínútum með því að svara spurningunum sem að koma á eftir.

Umsagnir

„Opin, hrá og hreinskilin….Stína talaði opinskátt við unglingana um eigin reynslu á unglingsárunum sem hafði slæm áhrif á ákvarðanatöku hennar, sjálfsmynd og kynheilbrigði. Hún fjallaði um brenglaðar staðalímyndir og þrýsting frá jafnöldrum (e. peer pressure) og náði að flétta þær vel inn í frásögn sína af eigin reynsluheimi.

Unglingarnir tóku virkan þátt í tímanum og sýndu málefninu mikinn áhuga. Þau svöruðu spurningum nafnlaust á snjalltæki sem farið var yfir í lokin. Spurningarnar og umræðan í kjölfarið setti punktinn yfir i-ið á hreinskilinni og opinskárri fræðslu um sjálfsmynd og kynheilbrigði, fræðslu sem hefur vantað fyrir þennan aldurshóp.

Mæli með fyrir alla sem starfa með unglingum!“

Rósa Siemsen, náms- og starfsráðgjafi í Sjálandsskóla í Garðabæ

Kristín kom með erindi sitt inn í forvarnarviku skólans, þar sem nemendum var boðið upp á fjölbreytta fræðslu um ýmsa þætti sem ógna eða stuðla að heilbrigðu lífi ungmenna. Fyrirlestur hennar um sjálfsmynd og kynheilbrigði smellpassaði þar inn- enda fjallað um allt frá sjálfsfróun yfir í kynferðisofbeldi. Rauði þráðurinn var þó ávallt mikilvægi þess að setja mörk um eigin líkama og sál, bera virðingu fyrir sér og öðrum, og hlúa að eigin sjálfsmynd. Gríðarlega mikilvæg skilaboð til ungmenna sem eru að stíga sín fyrstu skref í ástarsamböndum og kynlífi.

Kristín náði auðveldlega til krakkanna enda opinská og hispurslaus. Hún talaði af einlægni um eigin reynslu og húmorinn aldrei langt undan þótt umræðuefnið tæki á, en aldrei þó á kostnað forvarnargildi fyrirlestursins.

Eygló Árnadóttir
Félagsmála-, janfréttis- og forvarnafulltrúi
Fjölbrautaskólinn við Ármúla

Kristín fangaði athygli hópsins strax í upphafi og hélt henni allan tímann. Hún mætti nemendum af alúð og einlægni og svaraði öllum spurningum þeirra á opinn og heiðarlegan máta. Við hlökkum til að fá hana aftur að ári með nýjan hóp nemenda. Fagmanneksja fram í fingurgóma.

Halldóra Björk Guðmundsdóttir
Kennari í FSU- Fjölbrautaskóla Suðurlands